Samræmi, enn og aftur

Næst þegar lögreglan stöðvar mig fyrir meintan hraðakstur á þjóðveginum ætla ég að öskra af öllum lífs og sálar kröftum beint í andlitið á henni "Helvítis fasistasvín. Drullaðu þér í burtu gungan þín. Já, og taktu af þér hjálminn, auminginn þinn!" Og ef hún er með skjöld ætla ég að hoppa á hann. Sennilega kveður þá löggan þá kurteislega og biður mig vel að lifa.

Hvað eru aftur fá ár síðan nokkrir "öfgasinnar" lyftu í kyrru hljóði sínu spjöldum með falúngong áletrunum í mannþrönginni á Austurvelli á 17. júní? Það liðu allavega ekki margar vikur að fyrstu handtöku. Ónei. Lögreglan yfirbugaði "óeirðarseggina" gjörsamlega á svona fimm sekúndum.


Samræmi. Algert.

 "Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti."

Einmitt minnti mig að þetta stæði einhvernvegin svona í stjórnarskránni. Nú er bara spurningin hvort þetta eigi líka við um reglugerðir, hvort við eigum öll að vera jöfn gagnvart þeim. Sé svo, fer maður að skjálfa.

Ég horfði í forundran á fréttir um daginn þar sem haft var viðtal við konu úr Grafarvogi. Sú hafði fengið gagnort bréf frá póstinum og innihald þess varð ekki misskilið á neinn hátt: Viku hafði þessi kona til að ganga þannig frá húsi sínu að bréfalúgan á útihurðinni stæði ekki nær stéttinni en 100 sentimetra í stað þeirra vesælu 70 sem raun bar vitni. Að öðrum kosti myndi fyrirtækið ekki bera til hennar póst. Í fréttinni var þess svo getið að pósturinn hefði náðarsamlegast framlengt þennan frest í mánuð. Að sögn talsmanneskju póstsins snýst þetta um starfsumhverfi bréfbera, að það sé viðunandi.

Það fyrsta sem maður gerir eftir að heyra svonanokkuð er að bregða sér fram í andyri og mæla. Mín lúga stendur í rétt ríflega 60 sentimetrum og hefur gert það frá árinu 1956. Ekki er við því að búast, sumsé, að pósturinn muni una við það og láta yfir sig ganga. Ég rölti út og skyggndist til nærliggjandi húsa. Ég sá ekki betur en að 9 af 10 skoðuðum lúgum gengju gróflega í berhögg við reglugerðina. Bíltúr suður Laugarnesveginn leiddi síðan í ljós að helmingur sjáanlegra lúga brutu augljóslega gegn reglugerðinni og þónokkrar til viðbótar virtust á gráu svæði. Ég leyfi mér að áætla, varlega, að rúmlega helmingur bréfalúga á andlitum íslenskra heimila standist ekki skilmála reglugerðarinnar.

Ný útihurð kostar ekki mikið minna en 100.000 kall. Takist manni að ná í smið til að skipta henni út og smella í lúgu má maður eiga von á lágmark 40.000 kalli fyrir vinnu ef smiðurinn er ævintýralega snöggur og sanngjarn. Lúga, lamir, skrár og húnn leggur sig á sirka 26.500 kall. Samtals er því lágmarkskostnaður heimilis við reglugerðarsamræminguna 166.500. Ég skýt á að 55.000 heimili þyrftu að bregðast við í snatri og koma sínum málum í lag. Því má reikna með að heildarkostnaður Íslendinga við átakið í sumar muni leggja sig á 9.157.500.000,- krónur. Einhver jarðgöng eða hátæknisjúkrahússdeild eða bara sjúkraþjálfarastöðvar mætti byggja fyrir það. Eða ætlar pósturinn að mismuna fólki og leyfa sumum að vera ólöglegir og sumum ekki? Nei, til að tryggja jafnræði fyrir reglugerðinni verður að taka þetta föstum tökum og láta ALLA laga þetta hjá sér.

Póstþjónusta er í eðli sínu þjónusta við sendandann, þann sem greiðir póstinum fyrir að koma bréfi til skila á ákveðið heimilisfang eða persónu. Þetta er ekki þjónusta við viðtakandann. Það væri því nær að meina reglugerðarbrjótum að senda póst í stað þess að hóta að svíkja helling af fólki um þjónustu sem það hefur þegar greitt fyrir.

PostkassarogbrefalugaÁ vefsíðu póstsins er gerð grein fyrir þessu átaki og ástæður þess útskýrðar. Það er gott og blessað að fólk hafi viðunandi starfsumhverfi og sjálfsagt að tillit sé tekið til þess við hönnun og uppsetningu útihurða. Með þessu hefur pósturinn mynd af póstkössum og útihurð með lúgu. Myndin af útihurðinni er sannkölluð hryllingsmynd, því þar er neðri brún bréfarifunnar í minnst 160 sm hæð, að því er virðist. Það er skýrt kveðið á um það í reglugerðinni að neðri brúnin skuli vera í minnst 1000 mm og mest 1200 mm.

Mest 1200 mm?!? Hvaðan kemur það? 

 

 

 

 Úr reglugerð um póstþjónustu:

"4.5.4. Uppsetning einkapóstkassa.
4.5.4.1. Í þéttbýli og annars staðar þar sem bréfaútburður fer fram, er sett það skilyrði fyrir útburði, að kassar eða bréfarifur séu á eða við útihurðir ein- tví- og þríbýlishúsa, en þar sem fleiri en 3 íbúðir hafa sameiginlegan inngang, skulu húseigendur setja upp póstkassasamstæður.
4.5.4.2. Bréfarifur skulu vera minnst 25 x 260 mm að stærð og staðsettar þannig, að hæð frá jörðu að neðri brún bréfarifu, sé ekki minni en 1000 mm og ekki meiri en 1200 mm.
4.5.4.3. Póstkassasamstæður skulu vera staðsettar á neðstu hæð, sem næst aðalanddyri, sem bréfberi getur óhindrað gengið að og athafnað sig við skil póstsins. Lýsing við kassasamstæðu skal vera góð og a. m. k. sú sama og almennt er krafist í göngum og stigahúsum fjölbýlishúsa.
4.5.4.4. Við hverja bréfarifu og/eða á hverjum kassa skal vera skilti eða gluggi fyrir nöfn, minnst 26 x 100 mm, þar sem tilgreint er með stóru og skýru prentletri fullt nafn húsráðanda og annarra sem hjá honum búa. Ennfremur skal í fjölbýlishúsum tilgreina númer og auðkenni hæðar. Húsverðir eða húsfélög í fjölbýlishúsum skulu sjá um, að kassarnir séu rétt merktir á hverjum tíma og ber þeim einnig að útvega búalista fyrir viðkomandi hús. Innbyrðis staðsetning kassanna skal vera sem eðlilegust t. d. kassi fyrir íbúð á 1. hæð vera neðstur til vinstri í samstæðunni o. s. frv. Kassarnir skulu vera læstir og samstæðan vel fest við vegg, þannig að útilokað sé að bréf falli upp fyrir hana og glatist.
4.5.4.5. Staðsetning kassasamstæða á vegg skal vera þannig, að hæð frá gólfi að neðri brún neðstu bréfarifu sé ekki minni en 700 mm og hæð frá gólfi að efri brún efstu bréfarifu sé ekki meiri en 1750 mm. Staðsetning einstakra kassa skal vera þannig, að hæð frá gólfi að neðri brún bréfarifu sé ekki minni en 1000 mm og að efri brún bréfarifu ekki meiri en 1200 mm.
4.5.4.6. Þar sem bifreiðar eru notaðar við útburð pósts skal setja upp kassa við vegamöt eða girðingarhlið og skulu slíkir kassar staðsettir þannig, að auðvelt sé að skila pósti í þá án þess að stíga þurfi út úr bifreiðinni. Þar sem heimreið er sameiginleg fyrir fleiri en eitt heimili (margbýli) skulu kassarnir settir upp hlið við hlið. Slíkir póstkassar mega ekki vera rauðir að lit, en að öðru leyti gilds um þá sömu reglur og um aðra einkapóstkassa.
4.5.4.7. Láti húseigandi undir höfuð leggjast að setja upp bréfarifu eða póstkassa skal póstmeistari eða stöðvarstjóri tilkynna í ábyrgðarbréfi tiltekinn frest til uppsetn-ingar.
4.5.4.8. Hlýði húseigandi ekki fyrirmælum þessum innan hins tiltekna frests, og færi kann ekki fram gildar ástæður fyrir því, tekur póst- og símamálastofnunin ákvörðun um, hvort útburði til hússins skuli hætta eða hvort ákvæðum skv. 36. gr. póstlaga skuli beitt, þ, e. viðtakandi tekinn úr póstsambandi."

Innistæða fyrir salti í grautinn

Margir halda að Guðni Ágústsson sé svolítið á eftir sinni samtíð. Það er rangt. Hann er talsvert á undan henni. Lykilsetning hans pólitíska ferils um stöðu konunnar bak við eldavélar þótti hlægileg á sínum tíma vegna plássleysisins sem þar var jafnan í gamladaga. En nýmóðins eldhúseyja breytir líkingunni talsvert. Þá má alveg sjá fyrir sér að "framan" við slíka eldavélareyju séu takkar og stjórnborð og þar standi karlinn og eldi. "Bakvið" hana, borðstofumegin, situr síðan konan silkisloppuð á rándýrum barstól, hönnunarundri sem hún borgaði fyrir sjálf, og sötrar mátulega kælt hvítvín milli athugasemda um eldamennskuna.
Slík kona myndi líka slá á putta bónda síns ef hann gerðist fjölþreifinn í saltbaukinn um of. Hún veit að salt er stórhættulegt nútímamanninum. Bóndanum er þó sú vorkunn að hafa alist upp í gamla, íslenska eldhúsinu þar sem ekkert bragðbætandi var látið út í mat nema salt og stundum pipar (en ekki mikið, samt - pipar er sterkur!). Krydd var ekki til í þá daga. Í mesta lagi Köð og grill eða Aromatic. Hvorttveggja salt að stærstum hluta.
Öndvert við samtíð sína veit Guðni, eins og konan bak við eldavélina, um hætturnar sem felast í saltinu. Yrðing hans um að Ingibjörg Sólrún klári grautinn þótt hann sé saltur er þar af leiðandi ekki bandvitlaus. Hún er nútímalega sönn.

Skilaboð frá þjóðinni

Nú rífast menn um hvað felist eiginlega í kosningaúrslitunum. Hef aldrei skilið þessar línur um "skýr skilaboð þjóðarinnar". Skil þær ekki heldur núna. Hvernig geta það verið sérstök skilaboð frá þjóðinni að einhver eigi að vera í stjórn og einhver ekki þegar ekkert framboðið fær yfir helming atkvæða? Einu skýru skilaboðin eru þau að 36,6% þjóðarinnar vilja að Sjálfstæðisflokkurinn ráði, 26,8% þjóðarinnar vilja að Samfylkingin ráði, 14,3% vilja að VG taki við stjórnartaumunum, 11,7% eru á því að Framsókn sé best treystandi fyrir landinu, 7,2% þjóðarinnar vilja Frjálslynda í forsætisráðuneytið og 3,3% Íslandshreyfinguna. Svo mætti taka auðu atkvæðaseðlana og þá lækkar hlutfall "þjóðarinnar". Svo mætti líka líta á heimasetu sem afstöðu og þá er nú kominn ansi stór flokkur fólks sem vill ekkert af ofangreindu.

Eftir stendur kannski það eitt að rétt ríflega helmingur kjósenda vildi aðra ríkisstjórn en þá sem nú situr.


Gráa svæðið

Spennusaga í svarthvítu á einum notalegasta stað netsins.

Kabúmmm!

Einhver hlýtur einhverntíman einhversstaðar að hafa gefið þessu nafn: Þegar maður fer að rekast óþægilega oft á sama fyrirbærið. Svo oft og í svo ólíku samhengi að það getur varla verið tilviljun. Þegar maður, til dæmis, mætir tvennum eineggja tvíburum á Laugaveginum fyrir hádegi áður en maður þarf tvisvar að víkja út á götuna fyrir tvöföldum barnavögnum í Bankastrætinu. Í Kringlunni undir kvöldið rekast augun í tvíbura í tískuverslun (eða var þetta kannski spegill bak við búðarborðið? Neinei. Þetta eru tvíburar í eins, bláum peysum.) og svo blasa kannski Ási og Gunni við manni á tímaritsforsíðu við hagkaupskassann. Um kvöldið er auðvitað vandaður heimildaþáttur í sjónvarpinu um erfðir og uppeldi þar sem rauði þráðurinn er tvíburar sem aðskildir voru við fæðingu. Rétt fyrir svefninn skrollar svo sjónvarpsfjarstýringin óvart á Dead Ringers Cronenbergs á einhverri rásinni.

Ég er lentur í svona lúppu með sprengingar núna. Tek varla eftir neinu öðru.

Kannski er ástæðan einfaldlega sú að tvisvar, þrisvar á dag skelfur vinnustaðurinn minn upp á þrjá til fjóra á Richter vegna sprenginga í nýbyggingargrunnum niðrí Borgartúni. Þetta hefur verið daglegt brauð í bráðum tvö ár og styrkur skjálftanna eykst stöðugt, ef eitthvað er.

Kannski er hún flóknari. Ástæðan. Og skelfilegri.

Ef sprengjuæði míns kæra vinar, Kjartans í Maputo, var kornið sem fyllti mælinn eru nýlegir sjónvarpsþættir frá bræðrum okkar í bandaríkjunum síðasta púslið í uggvekjandi heildarmyndina. Það liggur augljóslega eitthvað í loftinu. Og það er risavaxið, alþjóðlegt samsæri í gangi um að telja okkur (eða bara mér?!) trú um að sprengingar séu, þegar öllu er á botninn hvolft, í góðu lagi.

Ég ólst upp í skugga Sprengjunnar með stóru essi.  Þeirrar endanlegu. "Seinni" heimsstyrjöldin var nánast ekkert mál í samanburði. Loftvarnarflautur þegar óvinaflugvélarnar nálguðust ströndina, maður hljóp oní neðanjarðarbyrgi og beið þess að regninu slotaði og svo upp aftur að taka til í rústunum. Þetta er kannski ekki nákvæm lýsing - en maður átti allavega séns. Og líf eftir loftárásina ef maður lifði hana af. Öndvert við Sprengjuna. Þó ekki nema ein svoleiðis spryngi væri allt búið. Það yrði aldrei bara ein, heldur færi af stað keðjuverkun sem endaði með að allt vopnabúrið myndi sent af stað til að hefna og þótt maður hlypi í neðanjarðarbyrgið og kannski lifði af, mátti maður ekki koma upp fyrr en eftir 90 ár eða 150, eða hvað það var, útaf geislavirkninni. Semsagt aldrei. "Rauði takkinn" var einskonar slökkvari á heiminn.

(Ein ferskasta minning bernskunnar er frá heimsókn til vinar míns þar sem við horfðum í ógáti á hrollvekjuna Dr. Strangelove. Mörgum árum og martraðanóttum seinna sá ég þessa voðamynd einhversstaðar skilgreinda sem "svarta kómedíu". Það finnst mér enn hlægilegt í sjálfu sér.)

Jæja. Svo kláraðist Kalda stríðið og málið með Sprengjuna datt einhvernvegin af dagskrá. Þangað til núna að ofaní viðkvæmt ástand raunverulega heimsins fara að hellast sjónvarpsseríur þar sem Sprengjur springa og allt fellur samt sem áður í ljúfa löð. Á einni stöð lifir Jeríkó ótrauð af óljós ragnarök, Tuttuguogfjórir sprengdu eina í eyðimörkinni í hitteðfyrra og eina í LA í ár. Og life bara goes on.

Það er verið að venja mig við tilhugsunina um að Sprengja geti sprungið og allt verði í allra besta lagi eftir það. Nú skil ég líka betur hverslags óratíma það tekur að kljúfa sundur klöppina hérna niðurfrá. Allt ber að sama brunni. Bráðum hætti ég að kippa mér upp við drunurnar.

Einhver vinnufélaginn í salnum hefur valið sér auðþekkjanlega símhringingu höfuðstöðva CTU í 24 í gemsann sinn. Hann hringir látlaust.


Samleið með orkugeiranum

Flestir virðast eiga einhverslags samleið með orkufyrirtækjum landsins þessa dagana. Sumir í heift og bræði, aðrir í notalegri sátt og enn aðrir kannski allt í senn oní heitupottum sundlauganna. Í gær afréð ég að gerast maður síðasta árs og stofna blogg - nánast í þeim eina tilgangi að geta skipt mér af skrifum Kjartans vinar míns Valgarðssonar suður í Afríku með athugasemdum og slettirekuskap. Í dag sá ég síðan ekki betur en að verið væri að vísa í mína nýstofnuðu og galtómu síðu í vefpistli, smellti og sjá: Umsvifalaust skolaði mér inn á fagurrauðan dregil Orkuveitu Húsavíkur. Oh! Jæja, það fór þó aldrei svo að orkugeirinn gæti ekki skaffað manni efni í eina færslu.

Líkindin eru sláandi. En óvart. Ég sver það.

Sendi þeim Þingeyingum hlýjar kveðjur út í tómið. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.