Innistæða fyrir salti í grautinn

Margir halda að Guðni Ágústsson sé svolítið á eftir sinni samtíð. Það er rangt. Hann er talsvert á undan henni. Lykilsetning hans pólitíska ferils um stöðu konunnar bak við eldavélar þótti hlægileg á sínum tíma vegna plássleysisins sem þar var jafnan í gamladaga. En nýmóðins eldhúseyja breytir líkingunni talsvert. Þá má alveg sjá fyrir sér að "framan" við slíka eldavélareyju séu takkar og stjórnborð og þar standi karlinn og eldi. "Bakvið" hana, borðstofumegin, situr síðan konan silkisloppuð á rándýrum barstól, hönnunarundri sem hún borgaði fyrir sjálf, og sötrar mátulega kælt hvítvín milli athugasemda um eldamennskuna.
Slík kona myndi líka slá á putta bónda síns ef hann gerðist fjölþreifinn í saltbaukinn um of. Hún veit að salt er stórhættulegt nútímamanninum. Bóndanum er þó sú vorkunn að hafa alist upp í gamla, íslenska eldhúsinu þar sem ekkert bragðbætandi var látið út í mat nema salt og stundum pipar (en ekki mikið, samt - pipar er sterkur!). Krydd var ekki til í þá daga. Í mesta lagi Köð og grill eða Aromatic. Hvorttveggja salt að stærstum hluta.
Öndvert við samtíð sína veit Guðni, eins og konan bak við eldavélina, um hætturnar sem felast í saltinu. Yrðing hans um að Ingibjörg Sólrún klári grautinn þótt hann sé saltur er þar af leiðandi ekki bandvitlaus. Hún er nútímalega sönn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband