22.6.2007 | 12:00
Samræmi. Algert.
"Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti."
Einmitt minnti mig að þetta stæði einhvernvegin svona í stjórnarskránni. Nú er bara spurningin hvort þetta eigi líka við um reglugerðir, hvort við eigum öll að vera jöfn gagnvart þeim. Sé svo, fer maður að skjálfa.
Ég horfði í forundran á fréttir um daginn þar sem haft var viðtal við konu úr Grafarvogi. Sú hafði fengið gagnort bréf frá póstinum og innihald þess varð ekki misskilið á neinn hátt: Viku hafði þessi kona til að ganga þannig frá húsi sínu að bréfalúgan á útihurðinni stæði ekki nær stéttinni en 100 sentimetra í stað þeirra vesælu 70 sem raun bar vitni. Að öðrum kosti myndi fyrirtækið ekki bera til hennar póst. Í fréttinni var þess svo getið að pósturinn hefði náðarsamlegast framlengt þennan frest í mánuð. Að sögn talsmanneskju póstsins snýst þetta um starfsumhverfi bréfbera, að það sé viðunandi.
Það fyrsta sem maður gerir eftir að heyra svonanokkuð er að bregða sér fram í andyri og mæla. Mín lúga stendur í rétt ríflega 60 sentimetrum og hefur gert það frá árinu 1956. Ekki er við því að búast, sumsé, að pósturinn muni una við það og láta yfir sig ganga. Ég rölti út og skyggndist til nærliggjandi húsa. Ég sá ekki betur en að 9 af 10 skoðuðum lúgum gengju gróflega í berhögg við reglugerðina. Bíltúr suður Laugarnesveginn leiddi síðan í ljós að helmingur sjáanlegra lúga brutu augljóslega gegn reglugerðinni og þónokkrar til viðbótar virtust á gráu svæði. Ég leyfi mér að áætla, varlega, að rúmlega helmingur bréfalúga á andlitum íslenskra heimila standist ekki skilmála reglugerðarinnar.
Ný útihurð kostar ekki mikið minna en 100.000 kall. Takist manni að ná í smið til að skipta henni út og smella í lúgu má maður eiga von á lágmark 40.000 kalli fyrir vinnu ef smiðurinn er ævintýralega snöggur og sanngjarn. Lúga, lamir, skrár og húnn leggur sig á sirka 26.500 kall. Samtals er því lágmarkskostnaður heimilis við reglugerðarsamræminguna 166.500. Ég skýt á að 55.000 heimili þyrftu að bregðast við í snatri og koma sínum málum í lag. Því má reikna með að heildarkostnaður Íslendinga við átakið í sumar muni leggja sig á 9.157.500.000,- krónur. Einhver jarðgöng eða hátæknisjúkrahússdeild eða bara sjúkraþjálfarastöðvar mætti byggja fyrir það. Eða ætlar pósturinn að mismuna fólki og leyfa sumum að vera ólöglegir og sumum ekki? Nei, til að tryggja jafnræði fyrir reglugerðinni verður að taka þetta föstum tökum og láta ALLA laga þetta hjá sér.
Póstþjónusta er í eðli sínu þjónusta við sendandann, þann sem greiðir póstinum fyrir að koma bréfi til skila á ákveðið heimilisfang eða persónu. Þetta er ekki þjónusta við viðtakandann. Það væri því nær að meina reglugerðarbrjótum að senda póst í stað þess að hóta að svíkja helling af fólki um þjónustu sem það hefur þegar greitt fyrir.
Á vefsíðu póstsins er gerð grein fyrir þessu átaki og ástæður þess útskýrðar. Það er gott og blessað að fólk hafi viðunandi starfsumhverfi og sjálfsagt að tillit sé tekið til þess við hönnun og uppsetningu útihurða. Með þessu hefur pósturinn mynd af póstkössum og útihurð með lúgu. Myndin af útihurðinni er sannkölluð hryllingsmynd, því þar er neðri brún bréfarifunnar í minnst 160 sm hæð, að því er virðist. Það er skýrt kveðið á um það í reglugerðinni að neðri brúnin skuli vera í minnst 1000 mm og mest 1200 mm.
Mest 1200 mm?!? Hvaðan kemur það?
Úr reglugerð um póstþjónustu:
4.5.4.1. Í þéttbýli og annars staðar þar sem bréfaútburður fer fram, er sett það skilyrði fyrir útburði, að kassar eða bréfarifur séu á eða við útihurðir ein- tví- og þríbýlishúsa, en þar sem fleiri en 3 íbúðir hafa sameiginlegan inngang, skulu húseigendur setja upp póstkassasamstæður.
4.5.4.2. Bréfarifur skulu vera minnst 25 x 260 mm að stærð og staðsettar þannig, að hæð frá jörðu að neðri brún bréfarifu, sé ekki minni en 1000 mm og ekki meiri en 1200 mm.
4.5.4.3. Póstkassasamstæður skulu vera staðsettar á neðstu hæð, sem næst aðalanddyri, sem bréfberi getur óhindrað gengið að og athafnað sig við skil póstsins. Lýsing við kassasamstæðu skal vera góð og a. m. k. sú sama og almennt er krafist í göngum og stigahúsum fjölbýlishúsa.
4.5.4.4. Við hverja bréfarifu og/eða á hverjum kassa skal vera skilti eða gluggi fyrir nöfn, minnst 26 x 100 mm, þar sem tilgreint er með stóru og skýru prentletri fullt nafn húsráðanda og annarra sem hjá honum búa. Ennfremur skal í fjölbýlishúsum tilgreina númer og auðkenni hæðar. Húsverðir eða húsfélög í fjölbýlishúsum skulu sjá um, að kassarnir séu rétt merktir á hverjum tíma og ber þeim einnig að útvega búalista fyrir viðkomandi hús. Innbyrðis staðsetning kassanna skal vera sem eðlilegust t. d. kassi fyrir íbúð á 1. hæð vera neðstur til vinstri í samstæðunni o. s. frv. Kassarnir skulu vera læstir og samstæðan vel fest við vegg, þannig að útilokað sé að bréf falli upp fyrir hana og glatist.
4.5.4.5. Staðsetning kassasamstæða á vegg skal vera þannig, að hæð frá gólfi að neðri brún neðstu bréfarifu sé ekki minni en 700 mm og hæð frá gólfi að efri brún efstu bréfarifu sé ekki meiri en 1750 mm. Staðsetning einstakra kassa skal vera þannig, að hæð frá gólfi að neðri brún bréfarifu sé ekki minni en 1000 mm og að efri brún bréfarifu ekki meiri en 1200 mm.
4.5.4.6. Þar sem bifreiðar eru notaðar við útburð pósts skal setja upp kassa við vegamöt eða girðingarhlið og skulu slíkir kassar staðsettir þannig, að auðvelt sé að skila pósti í þá án þess að stíga þurfi út úr bifreiðinni. Þar sem heimreið er sameiginleg fyrir fleiri en eitt heimili (margbýli) skulu kassarnir settir upp hlið við hlið. Slíkir póstkassar mega ekki vera rauðir að lit, en að öðru leyti gilds um þá sömu reglur og um aðra einkapóstkassa.
4.5.4.7. Láti húseigandi undir höfuð leggjast að setja upp bréfarifu eða póstkassa skal póstmeistari eða stöðvarstjóri tilkynna í ábyrgðarbréfi tiltekinn frest til uppsetn-ingar.
4.5.4.8. Hlýði húseigandi ekki fyrirmælum þessum innan hins tiltekna frests, og færi kann ekki fram gildar ástæður fyrir því, tekur póst- og símamálastofnunin ákvörðun um, hvort útburði til hússins skuli hætta eða hvort ákvæðum skv. 36. gr. póstlaga skuli beitt, þ, e. viðtakandi tekinn úr póstsambandi."
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.